941 - Milestone

Ef það sem kom fram í Kastljósi í gær (22. febrúar) er rétt og þá er ég að tala um frásögnina af yfirheyrslunum yfir Milestone-mönnum þá er veruleikinn í kringum hrunið líklega miklu verri en ég hef hingað til haldið. Þessir menn voru greinilega komnir langt útfyrir það sem þeir réðu við. Hvernig í ósköpunum komust þeir þangað?

Ég skil vel þá sem hrópa á byltingu núna. Get bara ekki fallist á að hún mundi breyta neinu. Óhæfir menn geta alveg eins komist til valda með byltingu eins og með kosningum. Að kosningahegðun manna virðist ekki ætla að breytast meira en útlit er fyrir er óskiljanlegt. Ég sé ekki að flokkarnir sjálfir geti breyst svo mikið að stjórnmál hér á landi komist í námunda við almennt siðgæði.

Mig hefur lengi langað til að gera örsögur eins og hann Jens Guð. Hef bara ekki hugmyndaflug til þess. En drauma dreymir mig stundum og auðvitað er hægt að gera skrýtnar sögur úr þeim. Kannski Jens geri það einmitt. Fyrir nokkru tilkynnti hann að hann væri nánast hættur að blogga. Auðvitað getur hann ekkert hætt. Það geta engir sem blogga af einhverju viti. Sjáið bara Sigurð Þór. Alltaf er hann að reyna að hætta. Og svo er öðlingurinn hann Svanur Gísli kominn aftur á Moggabloggið, sveimérþá.

Sagt er að núverandi ríkisstjórn hér á Íslandi sé í rauninni minnihlutastjórn. Þetta má hæglega til sanns vegar færa. Icesave-andstaðan er svo megn að stjórn á flestu er í skötulíki. Svo er forsetinn á öndverðum meiði við stjórnina og þeir sem vanir eru að vera á móti honum styðja hann með því meiri krafti sem hann stríðir ríkisstjórninni meira. Samt er ástæðulaust að vorkenna stjórninni. Það á ekkert að vera auðvelt að stjórna.

Umræða um ofurhraðalinn í Sviss sem ég skrifaði svolítið um í gær hefur verið talsverð í dag. Ágúst H. Bjarnason er minn helsti guru í vísindalegum efnum meðal moggabloggara. Hann hefur samt ekkert skrifað um þetta efni nýlega svo mér sé kunnugt. Heimsendaspádómar af þessu tilefni eru að mínu viti með öllu óraunhæfir. Skil ekki með nokkru móti hvernig skynsamir menn geta fengið sig til að trúa slíku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Heimsendaspádómar af þessu tilefni eru að mínu viti með öllu óraunhæfir. Skil ekki með nokkru móti hvernig skynsamir menn geta fengið sig til að trúa slíku.

Þú verður ekki svona kokhraustur daginn eftir heimsendann!

Sigurður Þór Guðjónsson, 24.2.2010 kl. 00:39

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jens er Guð og skrítin skepna,
skyldur ekkert Leifi heppna,
Sigurður Þór veðurviti:
"Vindur stundum, misjafn hiti."

Þorsteinn Briem, 24.2.2010 kl. 00:50

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmi það er enginn vandi að hætta að blogga. Þú bara venur þig á einhvern annan ósið, sínu verri. Einu sinni var ég háður því að hlusta á Útvarp Sögu, en svo fann ég bloggið og hlusta eiginlega ekkert á Arnþrúði eða Pétur lengur. Skrítið samt hvað ég var í mikilli afneitun gagnvart blogginu. Hélt alltaf að þetta væru mannorðsmorðingjar og guðsafneytarar upp til hópa . Sérstaklega fannst mér þessi Jens Guð mikill oflátungur og bara útaf nafninu Jens Guð, gamall kall að skrifa um popp og kalla sig Guð, það fannst mér hroki, seinna breyttust þessir fordómar því Jens er held ég vænsti kall og guðhræddur líka. Pólitíkina er alltaf hægt að rífast um en ekki trúarbrögðin finnst mér

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 24.2.2010 kl. 01:51

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, Sigurður. Þá verð ég dauður og engin þörf á að vera kokhraustur.

Vísnarísli vanbúinn
veröldin að fara.
Uggur minn er umsnúinn
unum þessu bara.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2010 kl. 01:56

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á ríkisvíxli Reynir Pétur,
reynist góður ábekingur,
á Bessastöðum ýsu étur,
Ólafur Ragnar sá spekingur.

Þorsteinn Briem, 24.2.2010 kl. 09:03

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Milestone málið er væntanlega bara brotabrot af sukkinu sem var í gangi, sem síðar felldi bankana og gerði atvinnulausa og ófædda Íslendinga ábyrga fyrir ICESAVE útibúi Landsbankans ehf.

Þú verður nú að taka heimsendaspár alvarlega. Hvaða fjör er í því að gera það ekki? Ekki gleyma því að heimsendir var árið 2000 og þá sprakk Internetblaðran. Árið 2008 var rafallinn settur í gang og þá sprakk Bankablaðran. 

Held að næsti heimsendir eigi að vera 2012. Spurning hvort einhver blaðra springi í kjölfarið?

Hrannar Baldursson, 24.2.2010 kl. 12:53

7 identicon

Það verður hvellur 2012. Þá verð ég 70 .

Ólafur Sveinsson 24.2.2010 kl. 13:19

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Það er bara svona.

Það stefnir í algjört öngþveiti árið 2012. Ég verð nefnilega sjötugur þá líka. Það gæti vel orðið enn einn heimsendirinn.

Það hafa örugglega ekki verið margir verri en þeir Milestone-menn. Hafi einhverjir verið svipaðir er það alveg nóg.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2010 kl. 14:13

9 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég myndi frekar kalla þetta þjóðstjórn en minnihlutastjórn, þar sem allir flokkarnir eru skikkaðir til að taka þátt í ákvörðunum á þessu eina máli sem virðist vera á dagskrá á Íslandí í dag. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.2.2010 kl. 15:00

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en afskaplega illa starfhæf þjóðstjórn og margir þeirra sem mestu virðast stjórna embættislausir og ábyrgðarlausir með öllu. Sannarlega einkennilegt ástand.

Sæmundur Bjarnason, 24.2.2010 kl. 15:57

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er lítið um fólk á Alþingi í dag en ósköpin öll af ræflum sem hoppa eins og hauslausar hænur kringum vandamálin og vinda þeim utan um hausinn á sér.

Árni Gunnarsson, 24.2.2010 kl. 16:57

12 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Árni hefur lög að mæla

Óskar Þorkelsson, 24.2.2010 kl. 19:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband