2602 - Proppé

Einhvern vegin er það svo að maður les aldrei nógu mikið. Hvort sem það er á netinu eða utan þess. Að mestu leyti er ég hættur að lesa bækur. Nema þær sem ókeypis eru á kyndlinum. Annars fer ég reglulega á bókasafnið. Svo er ég ekki nærri nógu fljótlesinn. Ég er t.d. að lesa einhverja ógnarlanga kyndilbók þessa dagana um Titanic. Mest er það nú reyndar um smíðina og þessháttar á þessu ógnarstóra skipi sem frægt varð fyrir það einkum að sökkva í jómfrúarferð sinni árið 1912.

Kannski veitir Viðreisn Sjálfstæðisflokknum eitthvert aðhald, ég veit það ekki, en um íhaldssemi þess flokks þarf ekki að efast. Björt framtíð hefur með hjónabandi sínu við Viðreisn kannski aukið áhrif sín. Trúverðugleiki og traust hefur samt minnkað eins og skoðanakannanir bera með sér. Framsóknarflokkurinn er alls ekki sá flokkur sem hann hefur stundum verið. Ef til vill verður Lilja Alfreðsdóttir bjargvættur flokksins. A.m.k. eru engar líkur til þess að Sigurður eða Sigmundur verði það. Samfylkingin mun hugsanlega lagast eitthvað, en áfram má búast við flokkadráttum á vinstri vængnum.

Enn hef ég þá trú að Óttar Proppé vilji gera vel. Hann á sennilega í höggi við þá starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins sem öllu vilja ráða. Ég er allsekki viss um að hann vilji endilega hafa heilbrigðismálin eins og verið hefur. Sennilega hefur hann engin úrslitaáhrif í þessum efnum. Hinsvegar ætti hann að geta haft áhrif á ríkisstjórnina. Einhvern vegin treysti ég honum betur en fjármálaráðherra til að standa uppí hárinu á Bjarna Benediktssyni. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar í heilbrigðisgeiranum virðast geta tekið útúr ríkiskassanum næstum því það sem þeir vilja, þó Landsspítalinn fái næstum ekkert. Sennilega er það tómur aumingjaskapur hjá þeim að vera ekki fyrir löngu búnir að stofna ríkra manna spítala.

Þegar eru skriðnir uppí til Tromparans einræðisherrarnir Duterte á Filippseyjum, Xi í Kína og Sísí í Egyptalandi. Kannski eru á leiðinni þangað Putin í Rússlandi og Assad í Sýrlandi. Sömuleiðis hefur hann hrósað Jong-un í Norður-Kóreu mikið fyrir gáfur. Jafnvel hans nánustu samstarfsmenn eru hættir að verða hissa á Donaldi sínum. Aðaltap Bandaríkjanna á þessu er að bandamenn þeirra hætta alveg að treysta þeim. Aftur á móti gengur Trump afleitlega í samskiptum sínum við þingið. Sumt hefur honum þó tekist alveg bærilega og Bandaríkjamenn bera mikla virðingu fyrir forseta sínum. Þó hef ég þá trú að hann verði aðeins 4 ár í embætti.

Man vel eftir því að þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra (man samt ekki nákvæmlega árið) sagði hann einhvertíma í ræðu að hann gerði sér vel ljóst að ójöfnuður væri að aukast á Íslandi. Satt að segja var ég dálítið ósáttur við að hann skyldi næstum ekkert gera til að breyta þessu. Þeir stjórnmálamenn sem mestu ráða í dag eru miklu fremur í því að auka þennan mismun. Sagt er að EES-samningurinn sé 25 ára um þessar mundir. Hann hefur valdið miklum breytingum á þjóðlífinu öllu þó hann væri allsekki óumdeildur a.m.k ekki í fyrstunni.

Kannski ég lesi þetta bara aðeins yfir og fleygi því síðan út í eterinn. A.m.k. er þetta orðið nógu langt að ég held.

IMG 1676Einhver mynd.


Bloggfærslur 3. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband