2605 - Þorsteinn Dalasýslumaður og bókasafnari

Við erum summan af meðfæddum hæfileikum okkar ásamt því sem við kunnum, vitum og getum. Þessvegna er það sem hundar geta til dæmis ekki lesið eða keyrt bíl. Þetta er ákaflega spakleg hugsum. Næstum því spakmæli.

Nú þegar hafa langt yfir 13 séð kvikmyndina. Hún var frumsýnd á Frakkastígnum þann átjánda janúar síðastliðinn og verður frumsýnd fyrir austan fjall á fimmtudaginn. Við ætlum síðan að bjóða hana víðar og búast má við heimsfrumsýningu í haust og jafnvel Íslandsfrumsýningu ef vel gengur. Frumsýningar gætu alls orðið svona 15. Satt að segja látum við okkur ekki dreyma um meira. Almennar sýningar eru alveg útúr myndinni. Þessi mynd fjallar um árekstra sem verða milli rútubílstjóra og járnabindingamanns úr Gnúpverjahreppi og er satt að segja mjög athyglisverð. Hið listræna gildi myndarinnar hefur ekki verið dregið í efa og þó e.t.v. sé vart hægt að búast við því að kostendur hennar endurheimti með vöxtum framlag sitt, hefur henni verið afskaplega vel tekið af áhorfendum.

Auðvitað er ég með þessu að gera grín að mörgum fréttatilkynningum. Oft fjalla þær einkanlega um það sem einhverjir ætla að gera. Ekki svo mikið um það sem gert hefur verið. Auðvitað gerist ekkert nema fólk ætli sér það. Stundum verður samt minna úr fyrirætlunum en efni standa til. Fréttaefni ætti þó að vera nóg þó fyrirætlanir séu látnar í friði. Oft er þetta vegna þess að fréttafólki finnst of mikið af neikvæðum fréttum. Ætlanir eru oftast jákvæðar og þess vegna rata þær sennilega oft í fréttir hjá fjölmiðlum.

Ofsalegt er á mér stuð
sem ei er þörf að lýsa.
Ekkert minnsta agnar puð
er mér þessi vísa.

Þessi samsetningur kom mér af einhverjum ástæðum í hug rétt áðan. Og það sem meira er, ég held endilega að hún sé eftir mig sjálfan. Já, það kemur alveg fyrir að ég geri ágætar vísur. Til að vísa nái flugi þarf samt eitthvað meira til, en að hún sé sæmilega gerð. Veit ekki hvað það er, en ekki fer það eftir því hver hefur samið hana. Samt getur það orðið til hjálpar. T.d. hef ég ekki hugmynd um eftir hvern þessi vísa er:

Fallega Þorsteinn flugið tók
fór um himna kliður.
En lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Þetta var mér sagt að hefði verið ort um Þorstein Dalasýslumann þegar hann dó. Sagt var um hann að hann skilaði sjaldan bókum sem hann hefði fengið lánaðar. Þó ég hafi enga hugmynd um hver hafi ort þetta held ég að þessi vísa hafi verið á flestra vörum afar fljótlega. Sjálfur hef ég yfirleitt lítinn áhuga á að vita eftir hvern vísur eru, en sumir vilja umfram allt vita það.

IMG 1639Einhver mynd.


Bloggfærslur 11. maí 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband