2665 - Netútgáfan

Margir eru þeir sem keppast við að halda því fram að hugtökin „vinstri“ og „hægri“ eigi ekki við um stjórnmál dagsins í dag. Í mínum huga er skiptingin í grundvallaratriðum þannig að þeir sem vinstrisinnaðir eru vilja oftast meiri ríkisafskipti af ýmsu tagi, en þeir sem hægrisinnaðir eru. Auðvitað blandast þetta á ýmsan hátt saman og þessi skipting hefur allsekki jafnsafdráttarlausa merkingu og áður fyrr.

Einnig mætti sem best skipta stjórmálaflokkum í opingáttarmenn og einangrunarsinna eins og mig minnir að einhver hafi gert. Sumir halda því meira að segja fram að allir séu í rauninni Framsóknarmenn. En það er nú önnur saga.

Varðandi stjórnarmyndunartilraunir þær sem nú standa yfir vil ég einkum segja það að Siguður Ingi hefur sennilega frá upphafi gert sér grein fyrir því að Framsóknarflokkuinn gæti haft einskonar úrslitavald þegar að stjórnarmyndun kæmi.

Ég er ekki endilega að segja að hann hafi tekið þátt í upphaflegum viðræðum af óheilindum. Heldur að hann vilji a.m.k. núna heldur hafa íhaldssma og hægri sinnaða einangrunarsinna við stjórnvölinn með þægilegan þingmeirihluta á bak við sig en vinstrisinnaða opingáttarmenn með tæpan meirihluta.

Ef Katrín Jakobsdóttir getur tryggt hæfilegt taumhald á hægrisinnuðum einangrunarsinnum í Sjálfstæðisflokknum þá hef ég svosem ekkert sérstakt að athuga við þá ríkisstjórn sem verið er að rembast við að mynda núna. Áreiðanlega mun sú ríkisstjórn samt ekki standa fyrir neinum umtalsverðum breytingum, enda gáfu kosningaúrslitin ekki tilefni til þess. Breytingamenn höfðu þó mun hærra en hinir, þó þeim hafi ekki tekist að breyta því í kosningasigur.

Eitt sinn var ég fenginn til að flytja fyrirlestur um Netútgáfuna svokölluðu á ráðstefnu á Selfossi og af því ég hef fremur lítið að segja núna vegna þess að allt er á öðrum endanum útaf stjórnarmyndunartilraunum sem mér finnst hálfleiðinlegar ætla ég að setja hingað upphaf þessa fyrirlesturs eða ég held að svo sé. Fann þetta semsagt á tölvunni.

Öfugt við það sem margir virðast álíta þá er það síður en svo nein nýjung að gefa út bækur á Netinu.

Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarmikið.

Við hjá Netútgáfunni höfum frá upphafi haft Gutenberg sem fyrirmynd. Á sama hátt og þeir sem þar stjórna hefur það verið meginreglan hjá okkur að gefa aðeins út efni þar sem höfundarrétturinn er útrunninn. Einu undantekningarnar eru að í fáeinum tilfellum hafa viðkomandi höfundar gefið okkur rétt til að gefa út efni þeirra á sama hátt og höfundarrétturinn sé útrunninn.

Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá inn á tölvuna sína Bandamannasögu. Þetta gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware tölvuforrit og ýmislegt þessháttar.

Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.

Á árunum um 1990 og þar á eftir  stjórnaði ég BBS-i á Stöð 2 sem var einkum ætlað þýðendum til að senda þýðingar sínar en einnig notaði ég það sem venjulegt BBS. Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar.

Á árunum 1994 til 1996 að  mig minnir undirbjuggum við starfsemi Netútgáfunnar nokkuð og hugmynd  okkar var sú að koma  henni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem  var eitt af allra  fyrstu Internetfyrirtækjum á Íslandi. Þá var ákveðið að sú breyting  yrði á rekstri fyrirtækisins að Ísmennt yrði eingöngu fyrir skóla landsins og aðrir fengju ekki þar inni með eitt eða neitt.

Það var svo ekki fyrr en í janúar 1997 sem við settum Netútgáfuna formlega af stað. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.

12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Þá áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, Bandamannasögu, Bárðar sögu Snæfellsáss, Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt. Þess utan 5 fornaldarsögur Norðurlanda, fornkvæði eins og hávamál, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem þarna kom í fyrsta skipti í heillegri mynd fyrir almenningssjónir og einar 8 þjóðsögur.

Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, þ.e. til hausts árið 2001 gáfum við ætíð út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins  og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda  íslendingasagna og ýmissa  fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi upp telja.

IMG 0502Einhver mynd.


Bloggfærslur 14. nóvember 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband