2658 - Kosningar o.fl.

Mikið er fjasað um svissnesku leiðina svokölluðu í aðdraganda kosninganna. Hún á víst að vera allra meina bót. Hvernig er annars þessi svissneska leið? Mér skilst að hún snúist í aðalatriðum um það að þeir sem njóti hennar geti tekið út sinn lífeyrissparnað og sett hann í útborgun við íbúðar eða húsakaup. Hvort þetta verður til þess að eftirlaun lækka hjá öllum eða bara þeim sem gera þetta veit ég ekki. Svona málum er sífellt verið að breyta og alltaf er verið að leysa einhvern tiltekinn vanda. Einu sinni voru lífeyrissjóðirnir allra meina bók en líklega eru þeir það ekki lengur. Gott ef þeir og verðtryggingin eru ekki orðnir stærsta vandamálið. Ríkið hefur ekki getað stillt sig um að seilast í þá, þó þeir hafi upphaflega átt að vera alveg lausir við slíka afskiptasemi. Einu sinni var skyldusparnaður við lýði og hjálpaði mörgum að eignast sína fyrstu íbúð.

Mér finnst stjórnmálin vera alltof mikið hvít og svört. Það er alltaf hægt að finna fréttir sem styðja fremur en ganga gegn ákveðinni stjórnmálaskoðun. Andstæðingar einhverrar ákveðinnar skoðunar fá ekki eins mikla athygli oft eins of þeir ættu skilið. Í stað þess að sameinast um ákveðin grunngildi og halda þeim að lofti er stjórnmálafólk of upptekið af því að eyðileggja fyrir ímynduðum andstæðingum. Stjórnmál eru leiðinleg og fréttir oftast líka. Kjaftasögur geta hinsvegar verið stórskemmtilegar.

Það besta við lífeyrissjóðina hefur mér alltaf fundist vera tryggingarþáttur þeirra. Lítils virði er að eiga peninga í banka í ellinni, ef maður lifir svo lengur en maður hefur gert ráð fyrir. Auk þess er alltaf reynt að stela peningum í banka. Af ríkisstjórnum eða öðrum. Ef allt er reiknað til peninga er ellin lítils virði.

Af hverju verða allir svona æstir þegar kosningar eru yfirvofandi? Halda þeir að þeir hafi einhver áhrif? Geta svosem varið atkvæði sínu hvernig sem þeim dettur í hug, en er víst að áhrifin séu meiri? Margir virðast halda að lítið sé að marka skoðanakannanir og allt annað komi uppúr kjörkössunum. Svo er þó ekki. Mönnum gengur ágætlega að þegja. Annars er ekki hundur (eða hundrað) í hættunni þó við kjósum vitlaust. Sennilega getum við leiðrétt það eftir ár. Upplagt er að skipta um ríkisstjórn á eins árs fresti. Þær eru hvort eð er allar ónýtar. Ekki einu sinni ein-nota. Bjarna langar samt til að vera forsætis áfram. Ekki er víst að hann fái það samt. Kannski verður ekki mynduð ný ríkisstjórn fyrr en eftir marga mánuði.

Sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru skrýtnir. Ekki nóg með það að vilja endilega kjósa Árna Johnsen á þing aftur eftir fangelsisdvölina (æran ósnertanlega). Mér sýnist sjálfur þingforsetinn hún Unnur Brá vera í fjórða sæti á listanum þeirra á eftir þremur köllum. Meira að segja langt á eftir Ásmundi sjálfum.

Nú er talið að skáldið Pablo Neruda sem var vinur og félagi Salvatore Allende fyrrum forseta Chile hafi ekki dáið úr krabbameini eins og látið var í veðri vaka. Heldur að eitrað hafi verið fyrir honum. Árið 2013 var víst lík hans grafið upp og tekið sýni úr því. Þetta með Neruda sá ég einhversstaðar á Netinu. Það var samt ekki fyrr en núna áðan sem ég gaf mér tíma til að lesa fyrirsagnirnar í Fréttablaðinu frá í gær. Þetta með helvítis aðkomufólkið á Akureyri sem á að fá sérstaka verðskrá er að mínu mati nákvælega sama fyrirbrigðið og flóttamannaandúðin sem Ásmundur og fleiri mikla fyrir sér.

IMG 0364Einhver mynd.


Bloggfærslur 21. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband