2656 - Um feðraveldið o.fl.

Er feðraveldið eitthvað að bila? Eftir Hollywood fréttum að dæma gæti svo verið. Þetta Weinstein-mál er eflaust partur af því. Það hefur lengi verið vitað að ætlast væri til þess að konur (frægar leikkonur sem aðrar) svæfu hjá yfirmönnum sínum til að komast eitthvað áfram. Líklega hefur þetta viðgendist í meira mæli í Hollywood en víðast annarsstaðar. Mér finnst ekki að íslenskir fjölmiðlar þurfi að velta sér uppúr þessu máli þó þeir bandarísku geri það. En safaríkustu kjaftasögurnar hafa löngum snúist um hver sofi hjá hverjum o.s.frv. Kannski er jafnréttið hjá okkur Íslendingum komið lengra en hjá sumum öðrum.

Sagt er að konur séu konum verstar þegar kemur að feðraveldismálum. En að karlar þurfi endilega að vera feministar til að fría sig frá feðraveldinu finnst mér fulllangt gengið. Að vera hvítur miðaldra karlmaður hefur löngum verið vinsælt skammaryrði hjá sumum (jafnvel allmörgum) Bandaríkjamönnum og að horfa á allt í veröldinni með kynjagleraugum finnst mér rangt. Það er ekki svo að allt í veröldinni stjórnist að kyhvötinni einni saman, þó hún sé vissulega sterk hjá mörgum.

Ef þú ættir heima í Norður-Kóreu væri líklega höfuðglæpur að ruglast á Kimilsung, Kinjongil og Kimjongun. Hvað óvini þeirra snertir, virðist beinlínis ætlast til að þeir ruglist á þessu Kim-tali öllu saman. Myndasíða er til á internetinu sem heitir: Kim-Jong-Un horfir á hitt og þetta (kimjongunlookingatthings.com) og þar má sjá hinn ástæla leiðtoga líta á ýmsa hluti. Heilaþvotturinn virðist vera ansi almennur í þessu lokaða ríki og ég veit að sjálfsögðu minnst um það. Óvinir ríkisins eru alltumkring.

Ef maður gæti alltaf séð hvað aðrir eru að hugsa um, er ég hræddur um að ýmislegt miður fallegt mundi koma í ljós. Sumt gæti þó jafnvel verið fallegra en maður ætti von á. Engin leið er að fullyrða nokkuð um það. Vel má samt gera ráð fyrir því að það sem menn (og konur) láta frá sér fara í rituðu eða töluðu máli sé í sæmilegu samræmi við hugmyndir annarra um viðkomandi. Í pólitík er þetta þó dálítið beggja blands því oft verða menn að tala (eða rita) þvert um hug sér til að þóknast þeim sem valdið hafa (eða þykjast hafa). Tryggileg spilling og þöggun finnst stjórnendum gulls ígildi. Þeir sem hingað til hafa ekki komist til metorða í sínum flokkum hyllast oft til þess að stökkva á næsta vagn. Þó held ég að Gandri hafi e.t.v. verið í alvöru tregur til að fara í framboð. Þó er ekki víst að hann verði neitt betri en aðrir þegar á reynir.

Eiginlega er Steingrímur Jóhann að verða eilífur augnakarl í íslenskum stjórnmálum. Sennilega er hann að bíða eftir því að verða gerður að sendiherra einhversstaðar, en kannski er hann búinn að missa af strætisvagninum hvað það snertir. Á sínum tíma vildi hann frekar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn. Nú er litla tjörnin orðin stærri en sú stóra var áður og þá getur hann ekki hætt. Katrín (með flírulega brosið sitt) Jakobsdóttir er kannski ágætur formaður en hún yrði að mínu áliti langtum betri ef hún losaði sig við Steingrím. Kannski er ekkert síður flokkseigendafélag hjá VG en öðrum. Álit mitt á píratanum Helga Hrafni fer sívaxandi. Sennilega gat hann ekki lengur starfað með Birgittu og hætti þessvegna í fyrra. Annars nenni ég ekki að eyða tímanum í að velta fyrir mér íslenskum stjórnmálum og læt þetta duga. En neikvæður er ég og stjórnmálin ósköp þreytandi.

IMG 0790Einhver mynd.


Bloggfærslur 15. október 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband