2511 - Peningar

„Ósköp deyr af fólkinu eftir að útvarpið kom“, sagði kerlingin. Sennilega var það sú sama sem sagði eftir að hafa hlustað lengi á stríðsfréttir: „Það veit ég að þetta endar með því að þeir drepa einhvern“. Hvort skyldi gamalt fólk eða ungt hugsa meira um dauðann? Veit það ekki, en að mestu er það tilgangslaust. Öll deyjum við einhverntíma, a.m.k. ennþá.

Mikill hávaði er í þjóðfélaginu útaf samþykkt alþingis á búvörulögunum með aðeins 19 atkvæðum. Sumir þingmenn gera mikinn greinarmun á hjásetu, að vera ekki við (með eða án leyfis) og mótatkvæði. Aðrir gera það ekki og hefur verið skorað á forseta Íslands að skrifa ekki undir lögin. Ósennilegt er að hann verði við því og einnig er ósennilegt að mjög margir skrifi undir áskorum þessa.

Samkvæmt Fréttablaðinu á að verja 36 milljónum í að veita 100 hælisleitendum styrk til að flytja sjálfviljugir heim aftur. Með öðrum orðum, það á að reyna að múta þeim með að meðaltali 360 þúsundum per kjaft. Sjálfsagt er þetta gróðavegur fyrir einhverja en hælisleitendur voru hér á landi 384 fyrstu átta mánuðina, svo ekki fá allir svo rausnarlegan styrk og heldur er ekki víst að allir vilji það. Að vera fluttur úr landi nauðugur í lögreglufylgd er líka styrkur og jafnvel brennimerking um leið.

Enn er talað um að kvenfólk standi ekki jafnfætis karlmönnun á mörgum sviðum. Vafalaust er það rétt. Að sjálfsögðu má deila endalaust um hraða á framförum, en að um mælanlega afturför sé að ræða á afmörkuðum og mikilvægum sviðum er gjörsamlega óviðunandi og gerir lagalega mismunun réttlætanlega og fjölgar mjög feministum af báðum kynjum.

Í Fréttablaðinu, sem ég las auðvitað eftir að hafa farið í daglega heilsubótargöngu mína er því einnig haldið fram að staða Sigmundar Davíðs sé sterk. Ég leyfi mér að vera á annarri skoðun. Samt hef ég ekki haft samband við neinn framsóknarforkólf og kannski byggist þessi skoðun mín á óskhyggju aðallega, en ég get ekkert gert að því.

Allt í einu fundust hundruð milljóna undir stól borgarstjóra og nú hamast menn við að útdeila peningum sem alls ekki voru til fyrir fáeinum dögum. Að Reykjavík setjist í forystusætið í menntamálum þjóðarinnar vegna þessara peninga er þó alveg óvíst, en kemur væntanlega í ljós síðar.

IMG 3518Einhver mynd.


Bloggfærslur 16. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband