2500 - Jónína Hjartardóttir

Er ég virkilega búinn að blogga tvöþúsundogfimmhundruð sinnum? Líklega er það rétt. Man ekki eftir að hafa gert vitleysu í númerasetningunni. Einu sinni, jú. Og þá var ég minntur á að leiðrétta það. Nú er þeim óðum að fækka sem kommenta á bloggið mitt. Einu sinni voru þeir talsvert margir. Nú er fésbókin tekin við. Merkilegt hve mikið er kjaftað þar. Virkir í athugasemdum virðast vera talsvert margir.

Hlustaði með öðru eyranu á útvarpið rétt áðan. Auðvitað var verið að tala um þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum. „Og þar var fullt af fólki sem var ekki undir áhrifum áfengis“, sagði kona nokkur. Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir því að fimm ára krakkar séu fullir, en áfengi er haldið að fólki á þjóðhátíð og þeir litnir hornauga sem ófullir eru. Ég sný ekki til baka með það. Vitað er að drukkið fólk eyðir meiru í allskyns vitleysu og út á það gera Vestmannaeyingar. Annars er þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum aðallega frábrugðin öðrum útihátíðum að því leyti að hún er fjölmennari. PR-vise hefur vel tekist til þar.

Undarlegt þetta með minnið. Maður man gjarnan eftir algjörlega þýðingarlausum hlutum en á kannski í erfiðleikum með giftingardaginn sinn. Man eftir því að einhverntíma í dýrafræðitíma (líklega) skrifað Jónína nokkur Hjartardóttir að hrafninn gerði sér gjarnan hreiður úr „víródrasli“ (ekki vír og drasli) og kennarinn (sem ég man ekki hver var) var mjög hrifinn af þessum rithætti. Af hverju ég man þetta frekar en margt annað úr skólanum skil ég ekki. Og að ég skuli muna eftir því að það var Jónína Hjartardóttir sem bjó til þennan rithátt skil ég heldur ekki. En svona er þetta. Maður ræður engu (eða litlu) um það hvað maður man og verður bara að sætta sig við það. Svo er minnið svikult líka. Þó maður haldi að maður muni einnhvað alveg með vissu, kann það að vera tóm vitleysa.

Nú er Guðni orðinn forseti. Ekki ber á öðru. Ekki hafði ég aldur til að kjósa þegar Ásgeir sigraði séra Bjarna, en síðan þá hef ég ávallt kosið sigurvegara í forsetakosningum. Held að Guðni hafi alla burði til að verða farsæll forseti. Að þau forsetahjónin skyldu velja lag til flutnings við embættistökuna eftir Bergþóru Árnadóttur við texta eftir Laufeyju Jakobsdóttur sýnir betur en margt annað tengsl þeirra við Hveragerði.

Ég er að hugsa um að hætta að birta gamlar myndir á eftir bloggunum mínum. Í bili að minnsta kosti. Nú er ég farinn að geta tekið sæmilegar myndir á símann minn. Og þar sem ég á eitthvað eftir af því sem Moggabloggsmenn seldu mér dýrum dómum á sínum tíma þá er ég að hugsa um að skutla nokkrum myndum uppá tölvuna þeirra. Kannski fylgja ekki nýjar myndir þessu bloggi, en fljótlega hugsa ég að það verði.

IMG 4801Einhver mynd.


Bloggfærslur 1. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband