2461 - Davíð fjórtándi

Ekki entist sú spá mín lengi að Davíð Oddsson mundi ekki bjóða sig fram til forseta.

Ég hef í hyggju að kjósa Guðna Th. í komandi forsetakosningum. Vonandi berjast Davíð og ÓRG um sama fylgið. Það er að segja fylgi þeirra sem engu vilja breyta. Guðni mun aftur á móti fyrst og fremst berjast við Andra Snæ og ég held að hann sigri þar en Davíð og ÓRG verði fyrir neðan þá.

Aftur á móti er ég ansi hræddur um að þingkosningarnar sem væntanlega verða í haust geti skilað mjög snúinni niðurstöðu. Sumarið verður samt spennandi pólitískt séð. Sú ríkisstjórn sem hugsanlega tekur við eftir kosningarnar í haust er ekki öfundsverð. Hætt er við að hún sitji ekki mjög lengi. Hugsanlega hefur ÓRG rétt fyrir sér að því leyti að ansi snúin staða gæti komið upp eftir næstu þingkosningar. Hann er samt ekki eini maðurinn sem gæti greitt úr þeirri flækju. Ég treysti Guðna Th. alveg til þess. Þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa að geta átt sér stað eftir fleiri leiðum en þeirri einu sem nú er til staðar og GTJ hefur opnað á þann möguleika.

Heldur finnst mér sú afsökun þynnkuleg sem ÓRG kom með eftir langa umhugsun. Hann segist hafa misskilið þá spurningu sem lögð var fyrir hann af fréttamanni CNN. Annað hvort er hann óvenju heimskur eða hraðlyginn. Ég fer ekkert ofan af þessari skoðun minni þó um sé að ræða forseta lýðveldisins sem ég hafi átt þátt í að koma til valda árið 1996.

Framboð Davíðs kemur sem blaut tuska framaní marga en satt að segja er hann með alla sína pólitísku fortíð ekki sá sem þjóðin vonast eftir í þetta embætti. Eflaust verður Davíð með öllu samþykkur Ólafi Ragnari um að núverandi stjórnarskrá sé bara skrambi góð. Sú held ég að sé ekki skoðun þjóðarinnar og útfrá þeirri skoðun er spádómur minn hér á undan. Verst að það skuli yfirleitt vera lítið að marka mína spádóma.

Já, já. Það er erfitt að varast stjórnmálin þessa dagana. Sumarið held ég að verði sögulegt. Jafnvel gæti komið hitabylgja.

Einhver mynd.WP 20150803 10 13 33 Pro


Bloggfærslur 8. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband