2446 - Stjórnarskráin og Hefner

Það er þetta með stjórnarskrána. Eiginlega er ég fylgjandi því að sætta mig við lítið því meira sé ekki hægt að fá í bili. Þó þessi hungurlús sé í boði Árna Páls finnst mér ekki rétt að fúlsa við henni. Við höfum sætt okkur við og komist af með stórgallaða stjórnarskrá allar götur frá því við vorum konungsríki og höfðum ekki aðra þjóðhöfðingja en Danska kónga. Ekki er þar með sagt að réttast sé að fara í fýlu og heimta annað hvort allt eða ekkert. Þjóðaratkvæðagreiðslur hljóta að vera til bóta. Nema við álítum fólk vera fífl og fíflin fleiri en þá sem með fullu viti eru.

Margt er í nýju stjórnarskárdrögunum sem horfir til bóta. Engin ástæða er samt til að flana að neinu. Ekki er með réttu hægt að segja að búið sé að samþykkja þá nýju þó þjóðin hafi með svolitlum semingi samþykkt að leggja þau drög sem fyrir lágu til grundvallar nýrri. Það er líka með ólíkindum að halda því fram að stjórnarskrár þurfi að samþykkja með öllum eða nánast öllum greiddum atkvæðum. Svo er alls ekki. Viss atriði í þeirri nýju eru samt alveg ótvírætt til bóta og í samræmi við þjóðarvilja. Fjölyrði þó ekkert um þau né gallana á þeirri gömlu. Kannski verðum við nefnilega að sætta okkur við hana alllengi enn.

Skilst að það sé klofningur innan Pírata varðandi þetta atriði og held endilega að Birgitta sé ekki sammála Helga Hrafni. Get samt ómögulega munað hvorum hópnum hvort um sig fylgir. Held að það skipti samt engu máli. Treysti nefnilega alveg Valgerði í þessu efni þó ég kjósi líklega Píratan næst eins og síðast.

Vilmundi heitnum Gylfasyni er eignuð setningin: „Löglegt en siðlaust.“ Kannski heldur sú setning minningu hans lengur á lofti en margt annað. Ótrúlegt er að enn virðast íslenskir ráðamenn ekki skilja þessa setningu. Segja má að það hafi komið berlega í ljós í nýafstöðnu ríkisstjórnarævintýri. Að minnsta kosti skilja Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hana alls ekki á sama hátt og flestir aðrir.

Hugh Hefner er víst að verða níræður. Einu sinni las maður „Playboy“ með mikilli áfergju, en nú held ég að bæði það blað og eigandinn séu að verða dálítið úrelt. Kannski er ég það líka með mín 73 ár á bakinu. Hefner virðist samt ekkert vera að smíða sér stakk eftir vexti eða láta deigan síga. Hvernig sem þetta síðasta spakmæli er nú skilið eða misskilið.

Ríkisstjórnarskiptin eru um garð gengin og engum greiði gerður með því að fjölyrða meira um þau. Samt mundi ég gjarnan vilja vita hvenær ég fái að kjósa.

Annars er Sigmundur greyið bara smápeð. Framámenn á Íslandi hafa yfirleitt komist til valda með þjófnuðum og svikum, annaðhvort sínum eigin eða nákominna skyldmenna. Það vita allir. Sigmundur hefur kannski ekkert stolið meira en aðrir. Hann er bara mun vitlausari. Hefur ekki einu sinni vit á að vera í samskonar skóm á báðum fótum. Hvað þá að fela peningana sína almennilega.

Reynum nú að taka hlutina með almennilegum vettlingatökum, eins og sagt var um árið.

WP 20160316 10 36 17 ProVettlingar.


Bloggfærslur 10. apríl 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband