2416 - Að veifa hendinni

Fyrir allmörgum árum þótti það frásagnarvert að hægt væri að hringja í ákveðið símanúmer með farsímanum sínum og fá þannig afgreidda kókflösku úr sjálfsala. Þetta minnir mig að hafi verið í Finnlandi. Held að þetta hafi verið á flugvelli þar og ekki hægt að fá afgreiðslu á annan hátt úr viðkomandi sjálfsala.

Nú er tæknin komin á það stig að nægilegt er að veifa hendinni fyrir framan sérstakt apparat og komast þannig í flugvél án þess að lenda í nokkrum hremmingum öðrum. Ekki er þetta þó mögulegt fyrir alla, en hefur samt verið gert í Svíþjóð. Svo þetta sé hægt þarf að láta græða í sig örflögu og fá auk þess sérstakt „frequent flyer-númer“ hjá viðkomandi flugfélagi og setja það á örflöguna. Kannski er þetta framtíðin. Öryggiskröfurnar á flugvöllum eru sífellt að verða örðugri og tímafrekari fyrir venjulegt fólk. Veit það bara um sjálfan mig að næstum hvergi stressast ég eins mikið upp og á flugvöllum, ef ég er sjálfur að fara í flug. Búðir eins og IKEA eru hátíð hjá því.

Fannst það heldur klént hjá SDG að reyna að nota tækifærið til að upphefja sjálfan sig þegar haft var samband við hann af einhverjum prentfjölmiðli í sambandi við sigur Þýskalands í Evrópukeppninni í handbolta. En fjölyrðum ekki um það. Auðvitað er ég svolítið pólitískur og á móti SDG og framsóknarflokknum þó ég hafi eitt sinn, fyrir óralöngu, kosið þann flokk. Tækifærismennskan er þar allsráðandi þó ágætis fólk sé þar innanum og samanvið. Stefna og hugsjónir Bjarna Benedikssonar sem formanns sjálfstæðisflokksins eru hinsvegar beinlínis hættulegar. Hann hafði t.d. forgöngu um það að bola Birgi Ármannssyni úr utanríkismálanefnd þingsins og skipa Hönnu Birnu Kristjánsdóttur formann þeirrar nefndar í staðinn. Og sjálfstæðisflokkurinn skipar sér hiklaust við hliðina á repúblikönum í Bandaríkjunum.

Vissulega á ESB í talsverðum vandræðum núna. Innganga þangað er heldur ekki á dagskrá þó Gunnari Braga hafi mistekist að hætta viðræðum við Evrópusambandið. ESB á einkum í vandræðum með flóttamannastrauminn frá Sýrlandi og svo hefur komið í ljós að sum Suður-Evrópu ríki hafa svindlað við inngönguna í Schengen-samstarfið og fleira á vegum ESB. Ekkert bendir til að neinn segi Bretum hvað eigi að koma í staðinn fyrir aðildina að ESB ef þátttakan þar verður felld í þjóðaratkvæðagreiðslu þeirri sem Cameron asnaðist til að lofa.

Það er illa farið með álitlega undirskriftasöfnun ef hún stöðvast fyrir neðan 60 þúsundin hjá Kára. Eiginlega getur hann sjálfum sér um kennt vegna þesss að með því að nefna ákveðnar tölur í ávarpi sínu gerir hann málið pólitískara en þurft hefði að vera. Kannski hef ég skrifað um þetta áður, nenni bara ekki að gá að því.

WP 20160128 16 44 43 ProBíll.


Bloggfærslur 2. febrúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband