2516 - Bankar

Bankahelvítin búa til peninga. En hvernig fara þeir að því? Kynni einhver að spyrja. Því er til að svara að ef þú leggur inn í banka eina milljón króna, þá getur bankinn lánað svona tíu milljónir. Það eru einfaldlega til töflur yfir hve mikið af innistandandi peningum stendur undir miklu af lánum. Auðvitað er einhver kostnaður fólginn í því að vera með fjölda fólks á launum, en hann má einfaldlega dekka með vaxtamun. Svo eru bankarnir tryggðir í bak og fyrir gagnvart allskyns áhlaupum.

Stundum eru bankar seldir (eða gefnir). Það er þó mjög sjaldgæft. Yfirleitt má reikna með að þeir séu a.m.k. tífalt verðmeiri en látið er í veðri vaka. Ef ég ætti nóg af peningum mundi ég að sjálfsögðu vilja nota þá til að kaupa þá peningavél sem bankar venjulega eru.

Vitanlega á ég ekki nægilega mikla peninga til þess. Samt þurfa þeir peningar sem bankinn er fær um að búa til ekki endilega að fara í vasa þeirra ríku, eins og þeir gera óneitanlega hér á Íslandi núna. Vel er hægt að hugsa sér að þeir peningar fari í þjóðþrifafyrirtæki eða innviði þess þjóðfélags sem býr þá til.

Horfði á fótboltann í gær. Neita því ekki að ég var farinn að búast við tapi hjá íslensku strákunum. Það hefði reyndar verið grimmilega ósanngjarnt. Þess vegna gladdist ég mjög þegar Alfreði Finnbogasyni tókst að skalla knöttinn í markið þegar leiknum var alveg að ljúka. Að Ísland skyldi síðan ná að sigra var mjög óvænt og satt að segja skil ég vel gremju vesalings Finnanna yfir því að fá á sig tvö mörk alveg í lok leiksins og annað þeirra meira að segja vafasamt. En svona er fótboltinn. Stundum er stutt á milli hláturs og gráts.

Ekki fer hjá því að kosningarnar um næstu mánaðmót verða gífurlega og jafnvel óvenjulega spennandi. Mér finnst Píratar hafa farið svolítið halloka núna síðustu dagana og að mestu að ósekju. Ekki treysti ég mér til að spá um hvernig næsta ríkisstjórn verður hér á Íslandi, en ég treysti mér vel til að spá um kosningarnar í Bandaríkjunum. Þar held ég að Hillary Clinton sigri með miklum yfirburðum.

Þó við eigum eftir að taka upp svolítið af kartöflum ennþá, hef ég engar sérstakar áhyggjur af því. Veðrið er að vísu orðið svolítið haustlegt, en samt er ekki svo kalt að ég haldi að karöfluupptakan verði sérstakt vandamál. Vonandi er langt ennþá í veruleg frost.

Nú er ég sennilega og vonandi búinn að blogga nóg. Kannski ég setji þetta bara upp. Annars er það alltaf vandamál hve löng bloggin eiga að vera. Og svo dettur mér jafnan í hug eitthvað krassandi til að skrifa um þegar ég hef nýlokið við að setja upp blogg. Að sumu leyti er jákvæðast að hafa þau sem styst. Þó mega þau ekki vera of stutt. Veit ekki eftir allar þessar tilraunir (ehemm) hve löng þau eiga að vera.

IMG 3394Einhver mynd.


Bloggfærslur 7. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband