2357 - Bill Bryson

Af einhverjum ástæðum hef ég ekki lesið af athygli fyrr en núna nýlega bókina „A short history of   nearly everything“ eftir Bill Bryson þó mér hafi einhvernvegin áskotnast hún. En hún liggur í mesta sakleysi á kyndlinum mínum og hefur sennilega verið þar alllengi. Sé að ég get ýmislegt á þessari bók lært. Bryson þessi er ágætis höfundur „nonfiction“ verka og ég hef lesið þónokkrar bækur eftir hann. Ástralíumaður sem fluttist búferlum til Bandaríkjanna ef ég man rétt.

Í þessari bók ræðir hann bæði um það stærsta í kosmólógíunni og það smæsta í atómvísindum dagsins og gerir það á mjög svo skiljanlegu máli þó efnið sé rammflókið.

Ekki fer mikið fyrir menningarnóttinni (sem stendur allan daginn) hér á Akranesi, en fréttatímarnir í sjónvarpinu eru fullir af þessu. Enda mikil gúrka núna og rigning að auki.

Ekki hef ég mikla hugmynd um hvers vegna fólk les bloggið mitt. Verið getur að einhverjir lesi það af áhuga fyrir heilsurækt minni. Þó er það vafamál. Samt sem áður ætla ég að lýsa hér að nokkru gönguferðum sem ég stunda af þónokkrum krafti. Viðmið mitt er 400 metrar á hverjar 5 mínútur. (Caledosið mitt er nefnilega stillt á það og ég þori ekki að breyta því.) og ég fer í u.þ.b. klukkutíma gönguferð flesta morgna. Viðmiðunin gerir 4,8 kílómetra á klukkutímann og er afar létt hugarreikningsdæmi að reikna út hve mikið maður er yfir eða undir viðmiðunarmarkinu á 5 mínútna fresti. Í gærmorgun (laugardag) var ég aðeins undir viðmiðunarmarkinu, enda stundaði ég lítið göngur meðan ég var í Ölfusborgum í viku. Þyngdin skiptir líka máli. Undanfarið hef ég stundum verið vitlausu megin við 105 kílóin og í morgun var ég 106 kíló. Þarf að taka mig svolítið á í þeirri deild. Í morgun var ég svo aðeins yfir viðmiðunarmarkinu í göngunni, en þó ekki nóg til þess að fara á 5 km hraða á klst. Hitt aðalmarkmiðið er að fara snöggvast undir 100 kg, en halda mig svo við 100 – 105 kg.

Píratar vilja að útvegsmenn bjóði í aflaréttinn. Hvers vegna hefur þetta ekki komist til framkvæmda fyrir löngu? Augljóslega er mikill stuðningur við eitthvað svona meðal kjósenda. Því verður þó varla komið á samstundis. Minnir að um þetta hafi oft verið kosið en útvegsmenn alltaf komið í veg fyrir framkvæmd málsins. Kannski er því ofbeldi að linna. Hugsanlegt er að Rússamakríll verði aðalkosningamálið í næstu kosningum.

Mér finnst best að segja fáein orð um sem flest og er fastur í blogginu. Fésbókin höfðar minna til mín. Þó er oft gaman að lesa það sem þar er sagt og skoða myndirnar þar.

Þó ég horfi yfirleitt lítið á sjónvarp fyrir utan fréttir, horfði ég af einhverjum ástæðum á þáttinn um Gylfa Þ. Gíslason í kvöld. Man vel eftir komu handritanna. „Flatöbogen, vær saa god“. Mogginn birti sína fyrstu fréttamynd í lit af löggubílnum sem flutti skruddurnar (sennilega á þjóðminjasafnið) þar sem hann var að aka yfir brúna á Skothúsveginum.

WP 20150725 14 34 58 ProÖkutæki á Akranesi.


Bloggfærslur 24. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband