2335 - Þjóðarsátt um ekki neitt

Í mínum huga snerist „þjóðarsáttin“ svonefnda um það að hætt var að vísitölubinda laun. Á þann hátt lenti allur kostnaður þessarar svokölluðu „sáttar“ á launamönnum einum. Framanaf gekk þetta samt ágætlega. Atvinnurekendur og aðrir silfurskeiðungar skildu vel, að sá jöfnuður í lífskjörum sem ríkt hefur hér á Íslandi, sem og á öðrum Norðurlöndum, var öllum í hag. Svo er greinilega ekki lengur. Hugsanlegt er að vatnaskilin hafi verið við söluna á bönkunum til útvalinna ómenna. Hrunið og það sem á eftir hefur komið gerir það svo að verkum að sennilega er skást á vísitölubinda launin aftur. Eða gagna ESB á hönd. Við Íslendinar kunnum að komast að raun um það fljótlega að þar dugir ekki að vinna að hlutunum með hangandi hendi.

Er núverandi ríkisstjórn miklu verri en allar sem setið hafa hingað til? Það finnst mér ekki óyggjandi. Margt er það sem færst hefur til betri vegar (fyrir atvinnulífið) þau tvö ár sem hún hefur starfað. Ekkert af því hefur þó komið þeim að séstöku gagni sem minnst bera úr býtum. Að halda því fram að engir skattar séu lagðir á þá sem minnstar hafa tekjurnar er í besta falli argasta lygi og í því versta fyrirlitleg blekkingartilraun. Lægstu laun eru skammarlega lág ef litið er til nágrannalandanna. Og þær kröfur sem settar eru fram í þeim vinnudeilum sem hafnar eru og boðaðar hafa verið eru alls ekki háar. Kannski er það umhverfið sem mest hefur breyst. Fólk sættir sig einfaldlega ekki við það ofbeldi sem stjórnvöld sannarlega beita.

Bjarni Benediktsson reynir að leyna því sem mest hann má að hann gengur greinilega erinda „hinna íslensku auðmanna“. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafði vit á að krefjast forsætisráðherrastólsins, (hefur þó hugsanlega ekki þingrofsréttinn), en fiskar samt sem áður eftir atkvæðum í býsna gruggugu vatni. Framsóknarflokkurinn (sem er u.þ.b. hundrað ára gamall) var alls ekki svona í gamla daga. Vitaskuld eru tímarnir breyttir og framsóknarflokkurinn er jafnóþarfur í stjórnmálum dagsins og hans fyrrverandi aðalfjandi, sjálfstæðisflokkurinn. Læt ég svo lokið þessum stjórnmálalegu pælingum mínum, enda er flest annað í lífinu skemmtilegra en þau.

Njótum þeirrar hátíðar sem í hönd fer og njótum veðursins (a.m.k. sólskinsins hér á Suðvesturlandinu) á þessari fyrstu ferðahelgi árisins. Jákvæðninnar hefur oft verið þörf en aldrei eins og núna.

Frá Akranesi.IMG 2289


Bloggfærslur 25. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband