2299 - Komst hann eða komst hann ekki

Mikið er nú rætt um hvort Sigmundur Davíð hafi verið í einhverju Morfís-liði eða ekki. Allsstaðar þykist SDG hafa verið. Var hann ekki einu sinni laumukommi. Það hlýtur að vera. Það er svo flott. Annars er hann alveg sæmilega að sér í Morfís-stælum. A.m.k. er hann lunkinn við að snúa útúr.

Setti einhverja útgáfu af þessari klausu á fésbókina og hélt satt að segja að ég hefði fundið upp nýtt orð. Túristaveiðar. Er þá ekki verið að veiða (eða reyna að veiða) túrista eins og Íslendingar virðast standa sig svo grimmilega vel í um þessar mundir? Þannig skil ég orðið a.m.k., en ekki sýnist mér að allir skilji það þannig. Eða hvað?

Ekki hefur lánasjóðurinn enn haft samband við mig. Þó gæti vel verið að ég skuldaði einhvers staðar nokkur hundruð milljarða án þess að vita það. Það er fátt sem hundstungan finnur ekki.

Finnst sjálfsagt að almenningur fái að kjósa sýslumenn og lögreglustjóra. Jafnvel hverskonar dómara einnig. Þó ekki knattspyrnudómara. Annars er hverskyns lýðræði eitur í beinum yfirstéttarinnar. Alþingismenn, sem eru lýðræðislega kjörnir (eða ættu að vera það) geta þó breytt þessu í einu hendingskasti. Sennilega kæra þeir sig samt ekki um að gera það.

Mikið er nú rætt um það hvort félag múslima eigi að þiggja peninga sem sagt er að Saudi-Arabar vilji gefa þeim til moskubyggingar. Eiginlega finnst mér að allir ættu að geta þegið alla þá peninga sem hægt er fá, hvort sem þeir koma frá fasistaríkjum eða ekki. Ekki vitum við í raun hvaðan sá gróði kemur sem kallaður er góðir peningar. Auðvitað er ekki sama í hvað peningarnir eru notaðir og ekki heldur hvort einhver skilyrði fylgja þeim. Annars getur vel verið að þetta sé óvenju heitt efni. Gott ef svínakjötið er það ekki líka.

Hef fengið fyrirspurnir í fésbókartölvupósti varðandi vírus sem dreift er í mínu nafni. Ég er samt enginn upphafsmaður að því að hann virðist hafa verið endurvakinn. Líklega er þetta sami vírusinn og ég setti óvart af stað fyrir allmörgum mánuðum. Hann hefur sennilega sofið greyið. Hugsanlega hafa fleiri orðið fyrir barðinu á þessu.

Nú er ég orðinn svo mikið heilsufrík að ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi næst að hætta við kaffið eða fésbókina. Óhætt er að segja að hvorttveggja skipi óhóflega stóra rullu í mínu lífi.

Bjarni Ben. varar fólk við að trúa því sem hann sagði fyrir kosningar. Nær sé að hlusta á það sem hann segir núna. Þetta finnst mér heldur þunnur þrettándi hjá honum. Er ekki hægt að ætlast til þess að formaður stjórnmálaflokks segi það sem hann meinar? Auðvitað hafa aðstæður breyst, en loforð er loforð.

WP 20150201 10 51 26 ProKringlumýrargata.


Bloggfærslur 7. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband