2285 - Turing

Einn af mestu hugsuðum síðustu aldar var án efa Alan Mathison Turing, sem Turing-vélin svokallaða er kennd við. Segja má að hann hafi einnig unnið ómetanlegt starf fyrir bandamenn í heimsstyrjöldinni síðari með því ásamt öðrum að ráða dulmál þýskra nasista svo sem frægt varð. Einnig má með miklum sanni segja hann föður tölvutækninnar og gervigreindarinnar. Hann var samkynhneigður og leyndi því ekkert öfugt við flesta aðra sem líkt var ástatt um. Á þeim árum var samkynhneigð álitinn glæpur og meðhöndluð sem slík. Turing var dæmdur fyrir kynvillu og hugsanlega var sjálfsmorð hans árið 1954 tengt því.

Auk alls annars var Turing þekktur sem Maraþonhlaupari og tvímælalaust einn af þeim bestu. Nýlega var endurprentuð fræg ævisaga Turings eftir Andrew Hodges sem fyrst kom út árið 1983 og á henni er kvikmyndin „The Imitation game“ lauslega byggð. Þessi bók nefnist „Alan Turing: The Enigma“. Með Enigma nafninu er bæði átt við hina frægu dulmálsvél þýsku nasistanna og Alan sjálfan, en sálarlíf hans var á margan hátt ráðgáta hin mesta.

Gúgli hjálpar þeim sem lítið vita til að skrifa eins og þeir séu sérfræðingar. Þó ég hafi vitað ýmislegt um Alan Turing fyrirfram, hefði ég aldrei getað skrifað greinarstúf eins og þann hér að framan ef ekki hefði komið til aðstoðin frá honum. Bæði notaði ég Gúgla til að staðfesta ýmis atriði sem ég taldi mig þó vita og auk þess var sumt sem ég beinlínis vissi ekki fyrir sem ég fékk upplýsingar um hjá honum. Gúgli vísar mikið í Wikipediu og upplýsingar eru þar um ýmislegt. Vera þarf þó á verði fyrir því að upplýsingar á netinu geta verið rangar, því allir eða næstum því allir geta sett færslur sínar þangað. Oft er því nauðsynlegt að fá upplýsingar víðar að.

Mig minnir að það hafi verið Þórarinn Eldjárn sem fabúleraði heilmikið um Guttavísur í einhverju sem ég las fyrir löngu. Guttavísur kunni ég og sönglaði mikið þegar ég var krakki. Einkum minnir mig að hann hafi gert mikið úr orðunum ,Grettir Sig, sem þar koma fyrir. Haldið því m.a. fram að stór stafur ætti að vera þar því um mannsnafn væri að ræða. Hugmyndin er fyndin og fráleit og á margan hátt í stíl við Þórarinn sem á það til að slá fram fráleitum fullyrðingum og rökstyðja þær svo á frumlegan hátt.

Datt í hug að spyrja Gúgla um Guttavísur og ekki stóð á svarinu. Svona segir hann að Guttavísur séu og ekki ætla ég að mótmæla því:

Sögu vil ég segja stutta, sem að ég hef nýskeð frétt.
Reyndar þekkið þið hann Gutta, það er alveg rétt.
Óþekkur er ætíð anginn sá, 
út um bæinn stekkur hann og hoppar til og frá.
Mömmu sinni aldrei unir hjá,

eða gegnir pabba sínum. 
Nei, nei það er frá.
Allan daginn, út um bæinn eilíf heyrast köll í þeim:
Gutti, Gutti, Gutti, Gutti, Gutti komdu heim.

Andlitið er á þeim stutta, oft sem rennblautt moldarflag.
Mædd er orðin mamma hans Gutta, mælir oft á dag:
Hvað varst þú að gera, Gutti minn? 
Geturðu aldrei skammast þín að koma svona inn?
Réttast væri að flengja ræfilinn. 
Reifstu svona buxurnar og nýja jakkann þinn?
Þú skalt ekki þræta Gutti, það er ekki nokkur vörn. 
Almáttugur! En sú mæða að eiga svona börn.

Gutti aldrei gegnir þessu, ”grettir sig” og bara hlær,
orðinn nærri að einni klessu undir bíl í gær.
Onaf háum vegg í dag hann datt. 
Drottinn minn. Og stutta nefið það varð alveg flatt 
eins og pönnukaka. Er það satt? 
Ó, já, því er ver og miður, þetta var svo bratt.

Nú er Gutta nefið snúið,
nú má hafa það á tröll.
Nú er kvæðið næstum búið,
nú er sagan öll.

Höfundur þessara vísna er Stefán Jónsson sá hinn sami og samdi sögurnar af Hjalta litla sem voru á sínum tíma lesnar í tætlur á mínu bernskuheimili. Auðvitað vill sá sem sló þetta inn að sín sé líka getið. Ég álít aftur á móti að svo margir hafi gert það, að slíkt sé óþarfi.

Fátt fælir mig eins mikið frá fésbókinni og orðin „share to play“. Stundum langar mig til að skoða vídeó sem eru þannig merkt, en í rauninni lít ég á þessháttar sem hvern annan vírus og yfirleitt forða ég mér sem skjótast út af fésbókinni ef ég rekst á þessi hötuðu orð. Áreiðanlega gera það ekki allir því ég ímynda mér að þá fengi svonalagað enga dreifingu. Enginn hörgull virðist vera á ávirðingum á hendur fésbókinni og ætli það sé ekki nóg að hafa eitt slíkt í hverju bloggi. Þó hef ég ekkert fjallað um staðreyndasöfnun og njósnir þeirra sem eiga fésbókina.

IMG 2108Tré.


Bloggfærslur 8. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband