2283 - Lykilorð o.fl.

Innskráningarnöfn, pin-númer, lykilorð og hverskonar auðkenni (þó ekki kennitala, hana er ég búinn að læra) eru að gera mig vitlausan. Kannski er því líkt farið með marga á mínum aldri. Um þetta gerði ég smávísu, sem allsekki er fullkomin frá bragfræðilegu sjónarmiði:

Lykilorðasóttin
læknar ei minn hag.
Með henni kemur óttinn
við ókominn dag.

Þegar rætt er um ókominn dag dettur mér í hug það sem enskurinn kallar „prepper, EMP“ og þessháttar. Bandaríkjamenn virðast afskaplega uppteknir af því að allt geti farið til fjandans og þá standi menn einir uppi og enginn geti hjálpað þeim nema þeir sjálfir. Kannski er það bara ég sem hef óeðlilegan áhuga á öllu sem tengist apocalypse, dystopiu  og  þvíumlíku. Orðið prepper er dregið af ensku orðunum „be prepared“ og EMP er skammstöfun fyrir electromagnetic pulse. Leiðbeiningabækur um niðursuðu matvæla og ýmislegt þessháttar höfða mjög til „preppers“, því þeir hafa mjög í heiðri skátaeinkunnarorðin gömlu: Vertu viðbúinn. Segulskotið (EMP) á að geta skemmt verulega svotil öll raftæki (og bíla) á vissu svæði á einu augnabliki. Um þetta alltsaman má endalaust fjölyrða og kannski geri ég það seinna.

Skáldsögur eru leiðindafyrirbrigði. A.m.k. þær sem hæstmóðins eru núumstundir. Þ.e.a.s. krimmar og æsingsbækur allskonar. Ævisögur og minningaþættir finnst mér skárri. Í krimmunum og flestum skáldsögum einnig snýst flest um eina hugmynd sem reynt er að teygja með fordómum og fávitahætti höfundarins á sem flestar blaðsíður. Oftast er hugmyndin í mesta lagi 10 blaðsíðna virði og það sem framyfir er, bara uppfylling. Mikið meira en helmingurinn af orkunni (höfundarins og annarra) fer síðan í svokallaða markaðssetningu. Þ.e.a.s. auglýsingar, uppáskriftir og ýmislegt annað. Vissulega eru þetta stór orð og sýna umfram allt hve indbildskur (dönskusletta) ég er.

Hef fremur lítið álit á umræðuþættinum nýja á RUV. Styrmir reynir að stjórna og taka fram fyrir hendurnar á Boga, sem heldur að hann stjórni. Þórhildur tekur ekki eftir neinu en talar bara og talar og hugsar stundum að því loknu. Að þrír stjórnendur séu að einum litlum útvarpsþætti er sennilega ofrausn. Þó hann sé í sjónvarpi.

Allt er semsagt heldur neikvætt hjá mér í þessu bloggi. Kannski ég ætti að líta svolítið jákvæðari augum á tilveruna. Sumt í náttúrpassamálinu er ekki svo galið. Þó finnst mér hugmyndin í heild ekki góð og aðrar eru svosem ekkert betri. Sjálfstæðismönnum yfirleitt ætti að lítast illa á þessa hugmynd en þó held ég að henni verði bara breytt lítilsháttar og samþykkt síðan eftir flokkslínum. Óþarfi að fara á límingunum útaf þessu. Aftur á móti held ég allt verði vitlaust ef viðræðuslitatillagan kemur fram aftur.

IMG 1986Jólaundirbúningur.


Bloggfærslur 4. febrúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband