2381 - Fýlan

Mér leiðist sá boðskapur að allir eigi ávallt að vera voðalega jákvæðir og í góðu skapi. Hvers á vonda skapið að gjalda? Það er eiginlega ekki hægt að vera í góðu skapi alltaf hreint. Til þess að vera í góðu skapi verður maður líka að prófa að vera í vondu skapi. Reyndar held ég að það sé allt í lagi að vera í slæmu skapi ef maður gerir engum neitt. Hvað ætti það svosem að káfa uppá mig eða þig þó einhver sé í vondu skapi öðru hvoru. Þessi sífellda broskrafa er beinlínis hættuleg. Það er ekki nauðsynlegt að finna að öllu mögulega þó maður sé slæmu skapi. Það er alveg nóg að vera bara í fýlu. Aðvitað er betra að einhverjir viti af því vegna þess að annars er fýlan til einskis. Held að það hreinsi bara sálina að vera stöku sinnum í fýlukasti.

Er búinn að vera í óvenjugóðu yrkingarstuði undanfarna daga og hef snimmhendis sett afraksturinn á „Boðnarmjöð“ á fésbókinni. Furðu margir lesa það sem þangað er sett.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur.
Við orðaþrautir ekki deigur.
Andlegur minn stækkar teigur.

Minnir að ég hafi gert þessa vísu fyrir allmörgum árum og þessvegna kann ég illa við að setja hana á Boðnarmjöðinn. Hún er áreiðanlega eftir mig, ég man nokkurn vegin eftir vísum sem ég hef gert sjái ég þær. Hinsvegar hef ég aldrei gert neinn reka að því að safna vísum eftir mig saman. Vona samt að flestar þær bestu séu á blogginu mínu. Þó er það ekkert víst. Man t.d. eftir nokkrum klámvísum sem ekki er víst að ég hafi sett á bloggið. Yfirleitt gleymi ég fljótlega vísum sem ég geri. Man vel eftir Bjarna Valtý og Sveinbirni Beinteinssyni þegar þeir voru að kveðast á í KB. Þeir voru snillingar, báðir tveir.

Varðandi stóra miðilsmálið vil ég aðallega segja þetta: Mér finnst Frosti hafa verið of stórorður. Þó er ég að flestu leyti mjög sammála honum. Mér finnst að fjölmiðlar eigi að láta miðla og annað rugl eiga sig að sem mestu leyti. Ef talin er hætta á stórfelldum vandræðum af slíku ruglfólki er samt e.t.v. ástæða til að endurskoða það. Sá miðill sem Frosti auglýsti á þennan áhrifaríka hátt virðist jafnvel vera gagnlegur og þessvegna hefði hann ekki átt að ráðast á hann af þessum ofsa. Kirkjan hefur að ég held tapað mest á þessu öllu saman. Prestarnir sem úttöluðu sig um þetta mál virtust vera mun ruglaðri en Frosti og miðillinn til samans.

Horfði á „Kiljuna“ í kvöld. Alveg er ég hissa á hvað Egill heldur þar vel á spilunum. Hætti t.d. með Braga þegar maður var um það bil að fá leið á honum. Satt að segja held ég að það sé eini sjónvarpsþátturinn sem ég horfi nokkuð reglulega á. Oft horfi ég samt líka á Hraðfréttirnar og Útsvarið.

IMG 1789Fossvogurinn.


Bloggfærslur 5. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband