2391 - Þriðja heimsstyrjöldin?

Kannski ég taki mér smáfrí frá skáksögunni, en næsta ár þar er árið 1954. Ég er eiginlega alveg hissa á því hve mikil umfjöllun fjölmiðla er um hryðjuverkin í París. Hugsanlega er það vegna þess að hún var öðruvísi en flest hryðjuverk sem unnin hafa verið hér á Vesturlöndum. Kannski er þriðja heimsstyrjöldin um það bil að skella á. Ekki veit ég það og hugsanlega enginn. Með öllu er samt vafalaust að við lifum á athyglisverðum tímum. Sennilegt er að veröldin breytist nokkuð núna eftir hryðjuverkin í París.

Þó ég reikni ekki með að til stríðsátaka komi get ég hæglega viðurkennt að ég hlakka að mörgu leyti til næstu kosninga. Hætt er við að pólitískar væringar aukist mikið. Vel er hægt að hugsa sér að lífskjör öll versni stórlega hér á Íslandi. Á margan hátt má segja að allsnægtaþjóðfélag á borð við Bandaríki Norður-Ameríku þrífist ekki hér. Hnattstaða og fámenni veldur þar mestu að sjálfsögðu. Vel getur svo farið að við verðum, nauðug viljug, að feta í fótspor hinna Norðurlandaþjóðanna. Engin leið er að spá fyrir um úrslit næstu kosninga. Heimsmálin eru í það miklum hnút að búast má við að þau hafi mikil áhrif á úrslitin. Einangrunarstefnan gæti sigrað.

Verkefnaleysi alþingis er hluti af vandamálinu „virðing alþingis“ sem þingmönnum verður oft tíðrætt um. Þingmennirnir ráða engu. Ríkisstjórnin ræður engu segir hún, en ber þó ábyrgðina. Hverjir eru það þá eiginlega sem ráða í raun? Það hljóta að vera starfsmenn ráðuneytanna. Þeir þurfa bara að passa sig á því að ráðherraræflarnir verði ekki öskureiðir. Sennilega er það helsta áhyggjuefni þeirra að ráðherrarnir fari að setja tímapressu á þá. Það vilja ráðherranir auðvitað helst ekki gera, því hver vill hafa hundóánægða starfsmenn?

Þess í stað reyna þeir (ráðherrarnir) að halda alþingi góðu með málæði og undanbrögðum. Hin svokallað virðing alþingis líður mikið fyrir þetta. Systemið er eiginlega alveg galið. Starfsmennirnir reyna að sjálfsögðu að gera sem allra minnst og skömmin lendir á alþingi sem ávallt er á síðustu skipunum með allt. Hræddur er ég um að „uppreisn alþingis“ verði fólgin í því að engar stjórnarskrárbreytingar komist í gegn. Hvorki á þessu þingi né nokkurntíma.

„Uppreisn almennings“ gæti síðan komið í ljós í næstu kosningum. Eða þarnæstu. Eða einhverntima seinna. „Virðingarleysi alþingis“ er vegna þess að alþingismenn vilja það í raun sjálfir. Kannski er farið að örla á „virðingarleysi ríkisstjórnarinnar“. Best að láta bara strákana (Bjarna og Simma) ráða þessu. Þeir hafa hvort eð er bara gaman af því. Svo eru þeir báðir hæfilega vitlausir, svo það er um að gera að reyna að koma öllu á þá. Nú eru jafnvel stjórnarþingmenn farnir að ókyrrast. Framkvæmdaleysi ríkisstjórnarinnar er farið að skera í augun. Söngurinn um að allt gangi vel er að verða svolítið þreytandi. Einhverjar handvaldar tölur á blaði gera það kannski, en alls ekki allt.

Það fór eins og mig grunaði. Ekki er mikill áhugi á skáksögunni. Nöfn þeirra skákmanna sem fremstir voru eru vel þekkt. A.m.k. í vissum kreðsum. Nú eru nöfnin aðallega kínversk og indversk. A.m.k. austurlensk og það er erfitt að muna þau. Einhvern vegin eru þau alls ekki eins hljómmikil og í gamla daga. Mangi litli stendur samt fyrir sínu. Þó hann tapi nú aðallega þegar hann tekur þátt í sveitakeppni. Sumir eflast einmitt við það.

Það er fremur erfitt með myndatökur þessa dagana. Líklega verð ég bara að fara aftur í það far að birta gamlar myndir. Auðvitað gæti ég svosem hætt þessu, en ég er búinn að venja mig á þetta.


Bloggfærslur 22. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband