2379 - Stuðin

Arnaldur segist nostra við málfarið og ekki efast ég um það. Að leggja orð sín í dóm lesanda einu sinni á ári finnst mér vera afar sjaldan. Helst vil ég fá fordæmingu eða hrós strax. Jafnvel þó ég fái ekki hundaskít greiddan fyrir snilldina. Þessvegna er það sem ég er bara bloggari en ekki rithöfundur. Reyni a.m.k. að telja sjálfum mér trú um að þannig sé það. Ég sé semsagt í rauninni rithöfundur þó það henti mér allsekki. Hugsanlega er ég þó það sem e.t.v. mætti nefna „stílisti“.

„Sjaldan bregður mær vana sínum“, var einhverntíma sagt og ég er ekki frá því að það eigi við hérna. Oft er ég í bestu stuði til skrifta þegar ég er nýbúinn að setja upp blogg. Og sannast það hér. Annars eru myndirnar að verða mér vandamál. Það er varla hægt að halda því endalaust áfram að setja bara á bloggið gamlar myndir. En myndavélin eða vélarnar hafa verið að stríða mér að undanförnu. Gamla Canon véin mín setur myndirnar hér og hvar í nýja Windowsinu, en ég er nú búinn að finna út úr því. Þar að auki setur myndsíminn minn myndirnar sem ég tek á hann ekki sjálfkrafa á tölvuna eins og hann á að gera. Fyrir svo utan allt þetta þá er ég ekki lengur viss um að ég taki neitt sérstaklega góðar myndir.

Þegar maður eldist finnst manni sífellt færra og færra vera það merkilegt að það taki því að hafa áhyggjur af því. Einna merkilegast finnst manni það sem lengst er síðan að gerðist. Auðvitað skiptir síðan máli hvað öðrum finnst.

Einhver minnir mig að hafi skrifað á fésbókina að honum þætti of lítið fjallað um það sem Guðbergur Bergsson sagði um Hallgrím Helgason. Mér finnst aftur á móti hafa verið fjallað fullmikið um það. Upphafleg orð Guðbergs (sem ekki voru falleg) eru ekkert stórum verri en vinsælir rithöfundar eru vanir að láta falla um keppinautana ef þeir á annað borð tjá sig um svoleiðis himpigimpi. Þau geta samt þegar best lætur fyllt uppí hugmyndir manns um viðkomandi rithöfunda. En auðvitað er best að reyna að gleyma þeim sem fyrst. Þeir vilja umfram allt láta dæma sig af bókum sínum. Allt annað er bara eitthvað sem þarf að flýta sér að komast í gegnum. Kannski meinar hann (Guðbergur) þetta af sínum innsta hjartans grunni og finnur enga aðra leið til að koma þessari skoðun sinni á framfæri. Að ætla að banna honum það er hrein og bein ritskoðun.

Mér sýnist veðrið ætla að verða alveg til fyrirmyndar um þessa helgi. Samt var það svo að gangstígarnir voru eilítið hálir í morgun, enda rakir eftir undafarnar rigningar.

Ég á eftir að pæla mig í gegnum alveg hnausþykkt fréttablað og geri það kannski á eftir. Annars finnst mér það ljótur siður hjá flestum fjölmiðlum að safna sem mestu efni í helgarútgáfurnar og ætlast til að einhverjir lesi þetta.

Mánudagsmorgunn. Enn sannast hið fornkveðna. Göngustuð eru ekkert frábrugðið öðrum stuðum. Ég var nokkurn vegin klukkutíma og átta mínútur að fara 5 kílómetrana í gær en í morgun var ég í betra stuði og var ekki nema um 59 mínutur að fara sömu leið. Veðrið var þó svipað báða dagana, en í gær var ég í regnjakka og þurfti þessvegna ekki að flýta mér. Kannski liggur munurinn þar.

IMG 1749Þarna hefur „trjáfellir“ verið á ferð.


Bloggfærslur 2. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband