2268 - Eygló, Sigrún og Vigdís

Gleðileg nýár kæru lesendur og þökk fyrir það gamla. Sumt af því sem hér er skrifað var ég búinn að setja á blað fyrir nokkrum dögum en fannst ekki eiga mikið erindi í áramótapottinn. Nú er ég kominn í stuð, enda komið nýtt ár og allir mínir lesendur enn við góða heilsu og hugsanlega í stuði líka.

Ég er sammála því að Eygló Harðardóttir hafi breyst. Áður fyrr hafði maður einna mesta trú á henni af þingmönnum framsóknar. Eftir að hún varð ráðherra finnst mér henni hafa farið mikið aftur. Um Sigrúnu veit ég ekkert, finnst aldurinn ekki skipta neinu máli. Vonum bara að hún reynist vel sem ráðherra. Vigdís Hauksdóttir hefði eiginlega átt að verða ráðherra og ég veit ekki hvers vegna hún varð það ekki. Sumt af þeirri gagnrýni sem hún hefur orðið fyrir er alls ekki sett fram af sanngirni, en hún er bæði óheppin og einlæg í því sem hún gerir. Flokkshollustan er henni líklega fjötur um fót. En kannski er hún bara svona hægrisinnuð. Framsóknarflokkurinn var það ekki og ef hann á að ná aftur fyrri stærð dugir ekki að leggja á sama hátt lag sitt við þjóðrembu og einangrunarstefu og gert hefur verið. Typpilsinna hefur hann samt alltaf verið og tækifærissinnaður.

Að Eygló Harðar skuli núna treysta sér til að verja ákvörðun Sigmundar Davíðs um að stytta tímabil atvinnuleysisbóta er sennilega það lægsta sem hún hefur komist. Ef hún er spurð útí þetta talar hún bara um eitthvað óviðkomandi málinu, eins og t.d. það að atvinnuleysi sé nú minna en áður. Það kemur málinu bara ekki nokkurn skapaðan hlut við. Fréttamenn láta samt gjarnan sem svo sé því þeir eru hræddir um að hún fari í fýlu annars.

Líklega er ég eini maðurinn sem hef engar sérstakar skoðanir á áramótaskaupi sjónvarpsins enda horfði ég ekki á það nærri allt. Hafði einfaldlega öðru að sinna. Sumt sá ég þó og fannst það hvorki gott né vont. Er jafnhissa á viðbrögðum fólks við því eins og því að fjöldi fólks skuli tilbúinn til að henda stórfé í tilgangslausar og í raun hættulegar sprengingar.

Þó ég hafi étið eins og svín núna um hátíðarnar, þá hef ég ekki bætt neinu verulegu á mig og er fremur ánægður með það. Núna hefst fljótlega aftur íhalds- og aðhaldstímabil og þó snjór sé þá verður haldið áfram gönguferðum og þessháttar von bráðar. Sú er a.m.k. ætlun mín og vonandi gengur hún eftir.

Eftir að vinnan fór er bloggið mín helsta þerapía. Það held ég a.m.k. Tölvan er líka mjög mikilvæg og skákin sömuleiðis. Útiveran er mín helsta hollusta og lengi vel hélt ég að með vinnuleysinu mundi ég fara að sinna félagsmálum meira, en sú hefur ekki orðið raunin. Sjónvarpið og aðra fjölmiðla en netið hef ég að mestu afskrifað og sé ekkert eftir því. Já, það er fremur erfitt að verða gamall og óþarfur. Líkamlegu hrönunina er líka erfitt að sætta sig við. Verst af öllu er að hugsa of mikið um það alltsaman. Að flestu leyti er lífið samt fremur gott við mig og ég hef eiginlega ekki undan neinu að kvarta. Stjórnarfarið snertir mig lítið og ég leiði það að mestu hjá mér.  

IMG 1959Uppstilling.


Bloggfærslur 1. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband