2225 - Er breska heimsveldið endanlega dáið?

Já, ég hefði átt að geta sagt mér það sjálfur. Skoðanakannanir hafa alltaf rétt fyrir sér. Þó ég hefði gjarnan viljað að Skotland samþykkti sjálfstæðistillöguna þó ekki væri nema til að stríða ríkisstjórnum og þeim sem öllu vilja ráða, þá var svosem ekki við öðru að búast. Þá er hægt að fara að hafa áhuga á einhverju öðru t.d. því hvenær Hanna Birna sér sína sæng uppreidda. Sumir halda að það verði aldrei, en ég held að það gerist 5 mínútum eftir að Bjarni Benediktsson formaður flokksins gefur í skyn að hann styðji hana ekki. Hvenær það gerist get ég aftur á móti ekki sagt til um.

Nú get ég semsagt lesið allar þær bækur sem ég hef sett á kyndilinn minn í símanum. Heimsótti Benna áðan og hann linnti ekki látum fyrr en hann var búinn að redda því. Þegar ég sagðist ekki geta lesið og gengið samtímis skildi hann mig ekki. Mér fannst það þó hryllilega auðskilið. Af hverju ætti ég frekar að vilja lesa í símanum en á Kyndlinum? Jú jú, ég viðurkenni að síminn er talsvert léttari.

Þetta með kílóin er talsvert streð. Veisluhöld eru óvinir megrunarkúra. Það vita allir. Skömmu áður en við héldum til Ölfusborga til veisluhalda náði ég mér niður í 116,4 kíló. Það var eins og við manninn mælt að þegar við komum úr Ölfusborgum var ég orðinn 118,3 kíló. Með samstilltu átaki tókst mér að komast í 118,1 en skömmu seinna var ég kominn í 118,3 kíló aftur (afmælisveislur o.þ.h.) og nú er mér enn og aftur búið að takast að komast niður í 118,1kíló. Ekki veit ég hvar þetta endar. Vonandi ekki úti í móa. Á morgun (sunnudag) er svo ein afmælisveislan enn.

Mary Roach er rithöfundur sem gagn er af að lesa. Fyrir nokkru las ég bók eftir hana sem var um „human cadavers“ semsagt lík og fjölbreytta notkun þeirra. Afar fróðleg bók um efni sem fáir vilja skrifa mikið um. Nú er ég að lesa bók eftir hana sem fjallar um geimferðir. Þetta er auðvitað margþvælt efni, en samt tekst henni að koma með nýja vinkla á það. T.d. segir hún frá tilraun til að láta ókunnugt fólk af ýmsu þjóðerni vera samvistum í mjög langan tíma. Að kakkalakkar kæmust þar inn hafði mér ekki dottið í hug. Heldur ekki að þau þyrftu að fást við lúsafaraldur. Rússnesku karlmennirnir kunnu reyndar gott ráð við því. Þeir einfaldlega rökuðu á sér skallann. Af hverju í ósköpunum gat kvenfólkið það ekki líka?

Í morgun fór ég í langa gönguferð. Fór alla leið niður að Hörpu, héðan úr Kópavoginum, og var rúman klukkutíma á leiðinni. Lúxus að geta svo bara hringt í Áslaugu (það gerði ég við Sólfarið) og látið hana sækja sig á bílnum.

Það virðist vera talsverður órói í framsóknarþingmönnunum. Sennilega líst þeim ekkert á næstu kosningar og treysta Sigmundi Davíð sennilega ekki til þess að finna uppá nýjum blekkingaleik. Varla getur hann unnið tvo kosningasigra útá sömu blekkinguna. Fólk vildi bara trúa þessari uppbelgdu þjóðernisrómantík í honum í síðustu kosningum. Jæja nú er ég byrjaður á minni ímynduðu pólitísku siðvæðingu svo það er líklega best að hætta.

IMG 1625Þetta hlýtur að tákna eitthvað.

IMG 1626Kenya. 


Bloggfærslur 20. september 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband