2152 - Áróður hefur áhrif

Týnd er æra, töpuð sál
tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wium.

Sumar vísur eru þannig að maður lærir þær samstundis. Þessi vísa er þeirrar gerðar. Alveg er ég viss um að ég hef bara lesið hana einu sinni. Reyndar man ég ákaflega lítið um Sunnefumálin svokölluðu. Eflaust mætti þó gúgla ýmislegt um þau og þykjast gáfaður. Held að Sunnefa þessi hafi verið ákærð fyrir að eignast barn með bróður sínum. Meira veit ég ekki um þau mál en vísuna kann ég og er nokkuð viss um að hún er lítið afbökuð. Í þessari vísu er ýmislegt sem bendir til þess að þó Sunnefumálin hafi ugglaust verið þeim Sunnefu og bróður hennar erfið, hefur talsvert verið horft á óþægindi valdsmanna af þessu.

Sagt er að Páll Ólafsson hafi með einni vísu komið í veg fyrir að þegnskylduvinnu yrði komið á hér á Íslandi. Vísan er svona:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi föðurlandið heitt.
Mætti hann vera í mánuð þræll.
og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessi vísa er greinilega af gerðinni sem ég nefndi. Einnig varð vísa um Þostein sýslumann í Dalasýslu sem komst á flug við lát hans mjög fræg. Hún er svona:  

Fallega Þorsteinns flugið tók
fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Kannski er þessi vísa ósanngjörn í garð Þorsteins, en það er greinilega hún sem lifir en bókasöfnun hans síður. Held samt að hún hafi verið mjög merkileg.

Alls kyns áróður er nú stundaður af miklu kappi. Fésbók er undirlögð af þessu og auglýsingum allskonar. Fimmaurabrandarar fjúka þar líka um ýmist í myndum, hreyfimyndum eða texta og lyftir það áreiðanlega geði einhverra.

Stjórnmálaáróðurinn hefur sennilega aldrei verið verri. Best er að láta hann eiga sig að mestu, en erfitt er að forðast hann. Ef grannt er skoðað er öll viðleitni pólitísk og alls staðar smjúga stjórnmálin inn. 

Ekki er samt allur áróður pólitískur. Áróður gegn þunglyndi er t.d. mjög áberandi núna. Einn af mínum helstu gúrúum í bloggskrifum er Harpa Hreinsdóttir. Lengi vel las ég blogg hennar með mikilli athygli og geri jafnvel enn í dag. Lærði margt og sníkjubloggaði þar stundum, en var kannski ekki meðal þeirra verstu sem það stunduðu. Hún er líka fésbókarsnillingur, eða virðist vera það. Ég er aftur á móti „analfabeti“ þegar kemur að fésbókinni, þó ég kunni vel að uppnefna hana. Harpa benti nýlega á grein þar sem rætt var um ráð við þunglyndi. Þrátt fyrir ágæt ráð þar svo sem að minnka kaffidrykkju og sykurát, var í lokin sagt: Hvernig líður líkamanum í dag?

Það er þessi áhersla á líkamann og útlitið sem er helsta ástæða þunglyndis i dag að því er ég held. Það dugar skammt að hafa ótakmarkað álit á sinni andlegu getu, ef samanburður, kvíði og ófullnægjukennd stafar mest af líkamanum og útlitinu.

Þegar ég var unglingur var það talsverð útilega að skreppa upp í Reykjadal og jafnvel alla leið í skátaskálann í Klambragili. Seinna meir fauk hann nú í burtu og nú er svo komið að varla er hægt að þverfóta þar fyrir túrhestum ýmisskonar. Í gestabókinni í þessum skála fann ég eitt sinn þessa vísu:

Harðna tekur tíðarfar
Theresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.

Sennilega hefur þessi vísa haft meiri áhrif á mig en ég hef gert mér grein fyrir. Það eru bæði gæði vísunnar og tvíræðni orðanna sem höfðu mikil áhrif á mig. Man ekki hvort það var um þetta leyti eða síðar sem ég lærði í skólanum undir handleiðslu eftirminnilegra kennara þau grundvallaratriði bragfræði sem hafa fylgt mér síðan.

Ásgautsstaðmálið er orðið mitt mottó í lokin og ég er ekkert að hugsa um að hætta því.

IMG 0227Trampólín með unga.


2151 - Túristi braust inn í ísskáp

Skil ekki sjálfur hvernig ég endist til þess að blogga þetta sí og æ án þess að hafa nokkuð sérstakt að segja. Kannski er þetta einhver skrifþörf, en meðan augljóst er að einhverjir lesa þetta (fáir þó) mun ég halda áfram. Þeir sem leiðir eru orðnir á þessu rausi mínu og vilja fá eitthvað bitastæðara og meira krassandi verða bara að fara eitthvað annað.

Síðasta vika hefur að mestu farið framhjá mér hvað stjórnmál og fréttir áhrærir og þar verð ég að kenna barnabarni mínu um. Þegar maður er kominn á minn aldur og lendir í því að fá barnabarn í heimsókn og gistingu í þónokkra daga þá er ekki um það að ræða að gera margt annað en að sinna þvílíkum orkubolta. Tek það fram að ég er ekki að kvarta.

Túristi braust inn í ísskáp á Siglufirði og svo voru starfsmenn Reykjavíkurborgar að reyna um daginn að brjótast inn í hús (mig minnir í Vesturbænum). Þetta var fullyrt á fésbókinni og þaðan rataði það víst í blöð eða jafnvel dagblöð. Reyndist síðan vera hin mesta vitleysa eins og margt sem á fésbókinni lendir. Þetta segir mér bara að fésbókarræfillinn er að verða of stór hluti í tilveru einhverra. Vonandi samt ekki minni. Ég reyni nefnilega að láta bloggið trompa fésbókina ef ég get. Er þá ekki blessað bloggið að verða alltof stór þáttur í minni tilveru? Jú, kannski og reyndar Internetið allt. Reyni samt að standa upp frá tölvunni öðru hvoru. Og svo eru það barnabörnin sem heimta sitt.

Síðast þegar ég skrapp í Hveragerði (nei, reyndar næstsíðast) ætluðu veðurguðirnir vitlausir að verða. Nú verður maður líklega að reikna með páskahreti fyrst Bjössi býður í súpu á föstudaginn langa. Það held ég endilega að hann geri. Jú, það passar. Ég hringdi í hann áðan og föstudagurinn langi er alveg frátekinn fyrir okkur systkinin.

Það er upplögð leið til mótmæla að gera það bara á laugardögum og helst þarf veðrið að vera sæmilega gott. Það er að vísu svo núna að hægt er að velja um að skreppa að Geysi eða fara niður á Austurvöll. Ég er ekki að grínast neitt og þeir sem standa fyrir þessu eiga heiður skilinn. Hugsanlega getur þetta haft áhrif og að amast við þessu er einfaldlega að setja sig upp á móti Búsáhaldabyltingunni sjálfri. Það er allsekki nóg að kjósa í alþingiskosningum á fjögurra ára fresti og hafa svo einstaka þjóðaratkvæðagreiðslur þess á milli ef yfirvöldum (eða forsetanum) þóknast. Bæjarstjórnarkosningar og forsetakosningar eru bara nokkurs konar skoðanakannanir, dýrar að vísu en afar ófullnægjandi. Fjöldi fólks vill greinilega hafa meira að segja um sín eigin málefni en nú er.

Varðandi Ásgautsstaði vil ég aðeins segja þetta núna. Einsog þeir örfáu sem lesa bloggið mitt reglulega geta hæglega séð hafa viðbrögð (í athugsemdum við bloggið) við áskorun minni til ýmissa aðila varðandi þetta mál lítinn árangur borið. Óskar Helgi Helgason er næstum því sá eini sem sýnt hefur þessu máli einhvern verulegan áhuga. Hann hefur sjálfur haldið úti Moggabloggi og gerir enn. Einnig hefur hann verið útilokaður þaðan, ef ég man rétt. Síðan var hann endurreistur, en ég þekki málið alls ekki út í hörgul. „Svarthamar“ nefnir hann bloggskrifin og þó ég lesi þau ekki oft veit ég að þau eru sérkennileg og málfar hans einnig. Hann virðist þó fylgjast vel með því sem ég skrifa um Ásgautsstaði og hefur að ég held hagsmuna að gæta sem tengjast því máli. En nú er ég semsagt að hugsa um að hætta og fara að sofa.

IMG 0219Köngull. 


Bloggfærslur 13. apríl 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband