2255 - Um blogg

Einkennilegt er að hlusta á jafnaðarvælinn í alþingismönnum. Halda þeir virkilega að einhverjir taki mark á þessu bulli? Kannski eru þeir bara að reyna að hafa áhrif á þá fáu fréttamenn sem neyðast til þess, atvinnu sinnar vegna, að hlusta á þá. Áhrifin geta þó sem hægast orðið öfug við það sem til er ætlast. Þrátt fyrir vitleysuna, sem þeir láta flæða yfir ósetna stólana, er ekki hægt að neita því að þarna liggur valdið. Fólkið, almenningur eða réttara sagt kjósendur geta þó hvenær sem er tekið það af þeim.

Margir þingmenn gera sér áreiðanlega grein fyrir þessu. Sem stofnun er Alþingi á heljarþröm ef ekki verða gerðar stórfelldar breytingar á því. Þingmenn þreytast ekki á því að segja, sér til afsökunar, að hið raunverulega starf alþingis fari fram í nefndunum. Af hverju er ekki reynt að sníða stærstu gallana af þeim reglum sem farið er eftir í þinginu sjálfu? Nei, skotgrafahernaðurinn, liðsskiptingin og auglýsingastarfsemin skal í hávegum höfð ásamt herleiðingu ræðustólsins. Fylgist stundum með hálftíma hálfvitanna, en afar sjaldan öðru á alþingi, nema þá helst mikilvægum atkvæðagreiðslum.

Um daginn sagði einhver að ÉG væri uppáhaldsbloggarinn sinn. Það fannst mér dálítið langt gengið. Hefði samt alveg fyrirgefið konunni minni og krökkunum það. Móðga vonandi engan þó ég segi að Jens Guð sé uppáhaldsbloggarinn minn. Ómar Ragnarsson er líka mjög góður en fullmikill besserwisser fyrir minn smekk. Gísli hlaupari og þýðandi, Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri, Lára Hanna og Harpa Hreinsdóttir eru líka feikilega góð og hafa kennt mér flest sem ég veit um blogg.

Aðalgallinn við þau er samt að þau eru ekki Moggabloggarar. Í þann úrvalsflokk sem Jens, Ómar, Gísli, Jónas og stelpurnar (já, ég er eldri en þær) eru óneitanlega í, dreymir mig að sjálfsögðu um að komast, en ég minnist bara orða Snorra Sturlusonar sáluga í Reykholti um að oflof sé háð og ég er hræddur um að sá sem hélt því fram að ég væri uppáhaldsbloggarinn sinn hafi verið að hæðast að mér.

Já, ég er svona viðkvæmur þó ég beri það ekki utan á mér svona dagsdaglega. Erfitt er nú um stundir að láta pólitísk málefni með öllu í friði og ég get ekki leynt því að vinstri sinnaður finnst mér ég vera. Í pólitískum málum finnst mér samt spádómar og kaldhæðni eiga best við. Metnað í þeim efnum hef ég engan. Þess vegna get ég skrifað um stjórnmál eins og mig lystir, en vil helst ekki móðga neinn. Kannski er ég fullmeinlaus í slíkum skrifum.

Einu sinni bloggaði ég daglega. Þessvegna er ég búinn að skrifa svona mörg blogg. Nú skrifa ég mun sjaldnar og kannski eru bloggin betri þá. Það get ég samt ómögulega vitað, því það virðist ekki vera hægt að leggja gæði að jöfnu við vinsældir. Sumir virðast samt halda það. Og ég hélt það áður fyrr.

Sé að ég hef ekkert minnst á Fésbókina hér og ætla að bæta úr því. Kvisin og klámtilraunirnar þar fara í taugarnar á mér. Ómissandi er hún þó. Því miður sé ég enga leið til að skilja hana almennilega.

WP 20141102 15 25 53 ProLaufblað.


Bloggfærslur 7. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband